Helstu einkenni félagskvíða eru að upplifa mikinn kvíða og óþægindi í félagslegum aðstæðum. Þeir sem eru haldnir félagskvíða forðast aðstæður sem fela sér félagsleg samskipti, aðstæður þar sem fólk þarf að borða eða drekka að öðrum ásjáandi eða aðstæður þar sem viðkomandi þarf að koma fram fyrir framan aðra.
Einstaklingar með félagskvíða finna til minnimáttarkenndar og upplifa sig neikvæðar en aðrir.
Félagskvíði hefur margvísleg áhrif á lífsgæði og getur haft áhrif á gengi í námi, atvinnulífi eða í persónulegu lífi.
Sá sem haldinn er félagskvíða óttast að verða dæmdur af öðrum, verða sér til skammar, verða hafnað eða niðurlægður. Viðkomandi er m.a. hræddur um að verða dæmdur sem veiklunda, heimskur eða leiðinlegur.
Sá sem haldinn er félagskvíða gerir miklar kröfur til sín í félagslegum aðstæðum og óttast slæmar afleiðingar nái hann ekki að uppfylla þær kröfur. Viðkomandi óttast eigin líkamleg viðbrögð t.d. að roðna, skjálfa, svitna eða stama. Einnig er ótti um að líkamleg einkenni sjáist utan á honum sem auki líkur á að verða dæmdur af öðrum.
Þeir sem haldnir eru félagskvíða styðjast oft við svokallaða öryggishegðun. Tilgangur hennar er að draga úr líkum á að það sem þeir óttast er gerist í raun og veru. Sá sem óttast að svitna klæðir sig í víð föt til að minnka líkur á að svitablettir sjáist. Það sem gerist oft er að sú hegðun sem ætlað er til að minnka athygli á sér snýst upp í að draga að sér frekari athygli.
Meðferð við félagskvíða
Í meðferð við félagskvíða eru kenndar hagnýtar aðferðir sem draga úr kvíða og auka færni í félagslegum samskiptum.
Meðferð við félagskvíða gengur í stuttu máli út á að kortleggja þær aðstæður sem valda kvíða. Kenndar eru aðferðir sem auðvelda viðkomandi að takast á við félagslegar aðstæður.
Þeir sem haldnir eru félagskvíða ímynda sér að kvíði haldi áfram að stigmagnast í aðstæðum. En eðli kvíðaviðbragðs er að það á sér ákveðið hámark og fellur síðan fljótt eftir að í aðstæður er komið.