Almenn kvíðaröskunn einkennist af þrálátum og stjórnlausum áhyggjum um allt milli himins og jarðar s.s. fjárhagsvandi, fjölskyldan, heilsan eða minniháttar málefni eins og til dæmis heimilishald eða umferðin. Kvíðaeinkennin eru frábrugðin eðlilegum kvíða þegar eitthvað gerist í lífi fólks eins og til að mynda fjárhagsáhyggjur sem koma stundum upp.

Manneskja með almenna kvíðaröskun hefur hins vegar óstjórnlega miklar áhyggjur af fjármálunum mörgum sinnum á dag í langan tíma. Áhyggjurnar geta verið til staðar þrátt fyrir að ekki sé ástæða fyrir þeim og er fólk oft meðvitað um að kvíðinn er óhóflegur. Áhyggjur eru röð hugsana sem vinda upp á sig eins og snjóboltaáhrif. Tilgangur áhyggja er að afstýra eða búa sig undir að eitthvað fari úrskeiðis eða endi illa í framtíðinni.

Algengt er að áhyggjur komi fram þegar fólk fær tíma til að hugsa eins og til dæmis þegar farið er að sofa eða slakað er á. Erfitt er að sleppa tökum af þessum hugsunum og upplifir fólk meðal annars svefntruflanir, mikla þreytu, vöðvaspennu, einbeitingarerfiðleika og pirring ásamt fleiri líkamlegra einkenna.

Algengi

Almenn kvíðaröskun er talin vera vangreind en fólk leitar sér yfirleitt fyrst hjálpar vegna líkamlegra einkenna eins og t.d. þreytu eða vöðvabólgu. Árlega greinast um 3 - 4% fólks með almenna kvíðaröskun og eru konur helmingi fleiri en karlar. Algengt er að almenn kvíðaröskun komi fram samhliða öðrum kvíðaröskunum, þunglyndi eða líkamlegum sjúkdómum.

Algeng einkenni almennrar kvíðaröskunar eru

  • Eirðarleysi, er á nálum
  • Þreyta/örmögnun
  • Einbeitingarerfiðleikar
  • Pirringur
  • Vöðvaspenna (t.d. í hálsi, kjálkum og herðum).
  • Svefntruflanir (erfiðleikar við að sofna, að halda svefni eða léleg gæði svefns).

Hugræn atferlismeðferð (HAM) við almennri kvíðaröskun

Meðferðaraðili og skjólstæðingur vinna saman að kortleggja vandann, koma auga á viðhorf og túlkun sem tengist áhyggjum og kvíða. Lögð er áhersla á að auka þol fólks við óvissu en áhyggjur eru notaðar til að undirbúa eða afstýra einhverskonar neikvæðri útkomu. Áhyggjur eru því tilraun til að draga úr óvissu og missir fólk af því að læra hvers hann/hún eru megnug við slíkar aðstæður.

Vítahringur almennrar kvíðaröskunar byrjar almennt með “hvað ef…” spurningum sem leiðir til áhyggja, kvíða og svo örmögnunar. Leitast er við að brjóta upp þennan vítahring með því að efla bjargráð og seiglu til að mæta óútreiknanlegum eða tvíræðum aðstæðum í nokkrum skrefum.

Með fleiri verkfæri að vopni til að takast á við vandann verður minni þörf fyrir áhyggjur og dregur þannig úr kvíðanum.