Við vissar aðstæður getum við orðið skelfingu lostin og er það eðlilegt ef við erum í hættu stödd. Ofsakvíði (einnig kallað felmturröskun) einkennist hins vegar af skelfingu án sýnilegrar hættu og tala margir um að kastið komi eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Ofsakvíði einkennist að endurteknum ofsakvíðaköstum sem virðast koma fyrirvaralaust og ná þau hámarki á nokkrum mínútum en geta varað í lengri tíma. Fólk verður skiljanlega verulega óttaslegið og telur einkennin vera merki um að eitthvað alvarlegt sé að.

Algengt er að fólk leiti sér hjálpar, fari á bráðavaktina eða hringi jafnvel á sjúkrabíl sem útskýrir vel hversu sterk þessi einkenni eru. Í kjölfarið getur fólk farið að óttast frekari köst og byrjar að forðast aðstæður eða athafnir sem gætu mögulega kveikt á köstunum.

Algeng einkenni sem geta koma fram í kvíðakasti:

  • Andnauð /köfnunartilfinning
  • Hraður hjartsláttur
  • Flökurleiki
  • Óraunveruleikatilfinning
  • Ótti við að deyja
  • Ótti við að missa vitið eða stjórn
  • Skjálfti
  • Sviti
  • Yfirliðstilfinning eða svimi
  • Þyngsli yfir brjósti

Algengi

Um 10% fólks fær eitt eða fleiri kvíðaköst einhverntímann um ævina. Um 3,5 % fólks þróar með sér ofsakvíða, það er „ótta við óttann”.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) við ofsakvíðaröskun

HAM er árangursríkasta meðferðin við ofsakvíða. Meðferðaraðili og skjólstæðingur vinna saman að ítarlegri kortlagningu ofsakvíðans. Koma þarf auga á viðhorf og túlkun ásamt hegðun sem tengjast ofsakvíðanum. Vandinn stafar af líkamlegum einkennum sem eru túlkuð þannig að eitthvað alvarlegt sé að gerast fyrir viðkomandi.

Það kemur af stað neikvæðum hugsunum eins og t.d. „það mun líða yfir mig“ eða „ég er að fá hjartaáfall“ og kveikir þannig á frekari líkamlegum kvíðaeinkennum. Fólk verður næmt fyrir líkamlegum einkennum og fer að leita eftir merkjum um að annað kast sé á leiðinni, t.d. breytingar í hjartslætti eða þyngsli yfir brjóstið.

Fólk fer sem sagt að taka betur eftir þessum breytingum (sem eiga sér oft stað í líkamanum) og túlka þau sem hættu. Það eitt getur hrint af stað kvíðakasti. Unnið er að því að brjóta upp þennan vítahring sem hefur myndast með fræðslu og tilraunum.