Þráhyggja og árátta tilheyrir flokki kvíðaraskana, þar sem einstaklingur fær mjög óþægilegar hugsanir sem og hvatir um að gera eitthvað óviðeigandi eða sér eitthvað eins og það sé raunverulegt fyrir sér sem veldur kvíða (þráhyggja). Þetta kallar svo á athafnir (áráttu) til þess að draga úr þessum kvíða og afstýra þannig mögulegri hættu sem viðkomandi mat að væri fyrir hendi.

Þráhyggja er hugrænt ástand sem birtist með mjög mismunandi hjá fólki en algengt er að hún snúi að einhverju af eftirtöldu:

  • Að smitast eða eitthvað tengt óhreinindum, sýklum, sjúkdómum og efnum eða jafnvel að maður smiti aðra af þessu
  • Að efast um hvort maður hafi gert eitthvað t.d. læst hurðinni, tekið eitthvað úr sambandi, slökkt á krananum eða ljósunum. 
  • Ótti um að maður beiti ofbeldi eða skaði aðra s.s. að skaða börn sín, maka, ráðast á ókunnuga
  • Að fá hræðilegar hugsýnir eins og að maki manns deyi í bílslysi eða flugslysi, barnið manns verði fyrir bíl
  • Þörf til að hafa hluti í röð og reglu. Þannig næst einhver stjórn sem annars mundi leiða til óþæginda fyrir viðkomandi

Árátta er aftur á móti eitthvað sem viðkomandi finnst hann þurfa að gera til að draga úr þeirri hættu sem þráhyggjan býr til. Þetta getur bæði verið hugrænt eins og að telja í huganum, fara með maríu bænir, endurtaka orð, sjá hluti fyrir sér eða atferlislegt eins að athuga, telja upphátt, raða hlutum á vissan hátt eða þrífa. Möguleikarnir hér geta í raun verið endalausir.

Algengi

Nokkrar rannsóknir hafa bent til að algengi áráttu og þráhyggju er rúmlega 2% hjá fullorðnum og 1% hjá börnum. Kynjaskipting er almennt nokkuð jöfn á fullorðins árum en aðeins algegnara hjá drengjum á barnsaldri.

Þetta form kvíðaröskunar veldur oft gríðarlegri þjáningu hjá fólki og skömmin í kringum þennan vanda getur verið veruleg. Hugræn atferlismeðferð hefur verið það meðferðarform sem hefur gagnast hvað best til að taka þessar hugmyndir (þráhyggju) til endurskoðunar og rjúfa vítahring athafna (áráttu).