ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir „Attention Deficit Hyperactivity Disorder“. Á íslensku mundi það vera athyglisbrestur með ofvirkni (AMO). ADHD er yfirleitt til staðar í bernsku og geta einkenni verið verulega hamlandi og nauðsynlegt að bregðast við þeim ef þannig er komið.

Þó er nauðsynlegt að benda á að fjöldi fólks er með ADHD einkenni án þess að það hái því á einhvern hátt og ekki er þörf fyrir inngrip. Við ákveðnar aðstæður geta þessi einkenni jafnvel talist til styrkleika og verið viðkomandi til framdráttar.

Algengi

Talið er að 5-10% barna og unglinga geta verið að glíma við ADHD. Það samsvarar því að í 20 barna bekk eru að meðaltali 2 börn sem geta verið að glíma við slíka röskum. Hugtakið röskun í ADHD er ekki notað þegar viðkomandi sýnir slík einkenni heldur þegar þessi einkenni eru farin að valda verulegum óþægindum og truflunum.

Algengt er að einstaklingar með ADHD ná ekki að nýta hæfileika sýna vegna þessara einkenna. Þó röskunin sé oft hvað mest hjá börnum og unglingum þá benda rannsóknir til þess að þeir sem greinast sem börn haldi áfram að hafa hamlandi einkenni fram í unglings og fullorðinsár. Þegar komið er fram í fullorðins ár þá er það þó yfirleitt athyglisbresturinn sem er aðalvandamálið.

Í raun má skipta ADHD upp í tvo flokka (athyglisbrest og ofvirkni/hvatvísi):

Athyglisbrestur

  • Hugar illa að smáatriðum og gerir fljótfærnislegar villur
  • Á erfitt með að halda athygli við verkefni eða leiki
  • Fylgir ekki fyrirmælum til enda og lýkur ekki við verkefni
  • Á erfitt með að skipuleggja verkefni og athafnir
  • Forðast viðfangsefni sem krefjast mikillar einbeitningar (heimanám, skólaverkefni, eitthvað tengt vinnu eða einkalífi)
  • Týnir oft hlutum sem hann/hún þarf til að sinna verkefnum eða til annarra daglegra athafna
  • Truflast auðveldlega
  • Gleymin í athöfnum daglegs lífs

Ofvirkni/hvatvísi

  • Er stöðugt á ferðinni
  • Talar óhóflega mikið
  • Hendur og fætur sífellt á iði
  • Þörf til að yfirgefa, þar sem ætlast er til viðkomandi er kyrr, er mjög mikil
  • Hleypur um eða prílar mikið (hjá fullorðnum mikið eirðarleysi, ávallt að gera eitthvað)
  • Erfiðleikar við að vera hljóður. Mikil læti í kringum viðkomandi
  • Erfitt með að bíða, t.d. röð, biðstofu eða í leik.
  • Grípa fram í eða ryðjast inn í samræður
  • Grípa fram í með svari áður en spurningu er lokið

Mikilvægt er að átta sig á því að ADHD er ekki sjúkdómur heldur ástand sem viðkomandi þarf að fást við og er breytilegt eftir aldri og þroska. Nauðsynlegt er að umhverfi viðkomandi er vel upplýst um hvernig er best að koma til móts við slíkt ástand auk þess sem einstaklingurinn sjálfur fái innsýn sem hæfir aldri og þroska.

Ef einkenni eru þannig að þau eru að valda verulega alvarlegri röskun á lífi fólks getur verið gagnlegt að leita til geðlæknis til að athuga með lyfjagjöf til að draga úr einkennum.

Algengir fylgikvillar ADHD eru kvíði og þunglyndi sem geta komið þegar einkenni sem lýst er hér að ofan eru farin að hafa truflandi áhrif á líf viðkomandi.