Helstu einkenni þunglyndis eru vanlíðan sem kemur í veg fyrir að fólk geri það sem það var vant að gera áður. Það sem veitti fólki gleði áður gerir það ekki lengur. Einkenni þunglyndis geta verið mismunandi eftir einstaklingum og frá einum tíma til annars.

Algeng einkenni eru m.a.:

  • þungt skap
  • pirringur
  • þreyta
  • áhugaleysi
  • erfiðleikar með einbeitingu.

Orsakir þunglyndis geta verið af ýmsum toga og má þar nefna erfðir, áföll og erfiða æsku. Erfiðar aðstæður í æsku geta kveikt neikvæðar hugmyndir og vantrú á sjálfum sér, öðrum og framtíðinni.
Eitt af einkennum þunglyndis eru svokallaðar hugsanaskekkjur.

Algengar hugsanaskekkjur ganga út á að gert er ráð fyrir að hlutirnir fari illa (hrakspár), neikvæð rörsýn og að taka hluti persónulega án ástæðu.

Þunglyndir einstaklingar eru líklegri til að túlka nýjar upplýsingar á neikvæðan hátt og eru líklegri til að muna neikvæða atburði heldur en jákvæða. Þeir eru einni líklegri til að kenna sjálfum sér frekar um það sem fer úrskeiðis

Meðferð við þunglyndi

Grunnurinn í meðferð á þunglyndi er að koma auga á tengsl milli tilfinninga og hugsana og að gera sér grein fyrir því hvernig hugsanir stjórna tilfinningum. Þannig er veitt aðstoð við ráðast gegn þeirri neikvæðu sýn sem sá þunglyndi hefur á sjálfan sig, umhverfið og framtíðina.

Einnig er mikilvægt að auka virkni einstaklinga þar sem aukin virkni leiðir oft til skýrari hugsana og hjálpa til við að leysa þau verkefni sem viðkomandi stendur frammi fyrir. Virkni virkjar einnig ákveðin taugaboðefni sem vinna gegn þunglyndi. Virkniskráningar eru góð leið til að tengja daglega virkni við ánægju.