Langvarandi verkir eru verkir sem vara lengur en 3-6 mánuði. Þeir geta haft mikil áhrif á líðan fólks en algengt er að fólk sem þjáist af langvarandi verkjum upplifi m.a. pirring, þunglyndi og kvíða.

Verkirnir skerða stundum getu fólks til að sinna því sem það áður gerði og margir finna fyrir sorg og jafnvel sektarkennd yfir stöðunni. Það getur einnig verið erfitt að fá skilning fólks þar sem verkirnir sjást ekki utan á fólki.

Sálfræðimeðferð við verkjum

Sálfræðimeðferð getur haft góð áhrif á afleiðingar langvarandi verkja, svo sem þunglyndi, kvíða, sektarkennd og óhjálpleg viðhorf.

Meðferð getur bætt lífsgæði og líðan fólks með því t.d. að vinna með hugsanir og viðhorf með hugrænni atferlismeðferð (HAM), slökun, núvitund eða sáttarmeðferð (ACT).