Flestir upplifa einhver áföll á lífsleiðinni og sem betur fer náum við að vinna úr þeim flestum upp á eigin spýtur. Hins vegar reynast sum áföll okkur erfiðari og stundum náum við ekki að vinna úr þeim með eðlilegum hætti og þá getur verið þörf á aðstoð fagaðila. Sjálfsagt er að leita sér aðstoðar þótt fólk uppfylli ekki greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun.
Áfallastreituröskun er greind ef tiltekin einkenni eru til staðar mánuði eftir að fólk hefur orðið fyrir eða verið vitni að áfalli á borð við náttúruhamfarir, stríð, alvarleg slys, hryðjuverk, nauðgun eða annars konar ofbeldi. Viðbrögð við áfallinu einkennast af hjálparleysi, ótta eða hryllingi og valda vanlíðan og truflun á daglegu lífi.
Helstu einkenni áfallastreituröskunar
Einkenni áfallastreituröskunar má greina í nokkra flokka.
Endurupplifun atburðar
Endurteknar truflandi hugsanir og ósjálfráðar minningar; óþægilegir draumar eða endurupplifanir frá áfallaatburðinum. Uppnám eða líkamleg viðbrögð eftir að hafa verið útsettur fyrir eitthvað sem minnir á áfallið.
Forðun
forðun á því sem minnir á áfallið sem getur falið í sér að forðast fólk, staði, athafnir, hluti og aðstæður sem vekja upp óþægilegar minningar. Fólk reynir að forðast að muna eða hugsa um áfallið og getur sýnt mikið viðnám gagnvart því að tala um það sem gerðist eða hvernig þeim líður með það.
Neikvæðar breytingar á hugarfari og líðan sem byrjaði eftir áfallið
hugsanir og tilfinningar sem geta falið í sér breytt viðhorf og trú um sjálfan sig eða aðra (t.d. „Ég er slæm(ur),“ „Engum er treystandi“). Viðvarandi ótta, hrylling, reiði, sektarkennd eða skömm; minni áhuga á athöfnum sem áður voru ánægjulegar; eða að það upplifir sig vera fjarlægt eða úr tenglsum við aðra. Erfiðleikar við að muna mikilvæga hluta úr áfallinu.
Breytingar á örvunarstigi og viðbrögðum tengdum áfallinu
Ofurárvekni sem getur falist í því að vera auðveldlega pirraður og reiðast auðveldlega. Einstaklingar geta sýnt af sér kæruleysislega eða óábyrga hegðun. Verða auðveldlega brugðið og eru oft eins og „hengdir upp á þráð“ og geta átt í erfiðleikum með að einbeita sér eða að sofa.
Meðferð við áfallastreituröskun
Í klínískum leiðbeininingum um meðferð áfallastreituröskunar er mælt með EMDR áfallameðferð og áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð (HAM). EMDR sameinar eiginleika ýmissa meðferðarforma, svo sem hugrænnar atferlismeðferðar, dýnamískrar meðferðar, interpersonal meðferðar og líkamsmiðaðrar (body centered) meðferðar. Nánari upplýsingar á EMDR má finna á www.emdr.is.