Sálfræðiþjónusta Suðurnesja sinnir bæði greiningu og meðferð fyrir börn og unglinga.
Ekki er þörf á tilvísun eða beiðni frá lækni til að fá þessa þjónustu.
Greining getur verið af ýmsum toga og þarf að meðhöndla það út frá þeim vanda sem greiningin er ætlað að svara. Greiningar eru gerðar í nánu samstarfi við foreldra barns auk þess sem það tekur þátt í ferlinu eftir þörfum. Einnig er haft samband við skóla eftir þörfum. Greining felur í sér upplýsingaöflun, svörun skimunarlista, mögulegt þroskamat auk greiningarviðtala. Niðurstöður eru ávallt kynntar foreldrum fyrst og síðan skóla ef þess gerist þörf. Barninu/unglingnum er einnig boðið að fá niðurstöður kynntar á þann hátt sem hentar því út frá aldri og þroska.
Meðferð hjá börnum og unglingum þarf einnig oftast að vinna í góðri samvinnu við foreldra og nánasta umhverfi barnsins. Foreldrar verða því oft virkir þátttakendur í ferlinu og hafa mikilli ábyrgð að gegna að koma meðferðinni í gagnið í daglegu lífi barnsins. Ef börnin eru mjög ung fer meðferð oft fram eingöngu gegnum foreldra en það er ávallt metið út frá hverju máli fyrir sig.